Sport

Lewis vill ekki sjá Tyson og Holyfield berjast aftur

AFP

Fyrrum heimsmeistarinn Lennox Lewis frá Bretlandi vill ekki sjá þá Mike Tyson og Evander Holyfield mætast í hringnum í þriðja sinn eins og talað hefur verið um undanfarnar vikur.

Holyfield hefur verið að reyna að ná endurkomu í þungaviktinni en tapaði síðasta bardaga sínum í haust. Mike Tyson hefur ekki barist alvöru bardaga í nokkur ár en hlaut þá skelfilega útreið.

Mikið hefur verið talað um að reyna að koma á þriðja bardaga þeirra Tyson og Holyfield, en viðureignir þeirra á síðasta áratug voru í meira lagi skrautlegar eins og flestir muna.

Lennox Lewis er alls ekki hrifinn af þessum hugmyndum. "Evander er augljóslega betri boxari og Tyson ætti ekki möguleika, en af hverju í ósköpunum myndi einhver vilja horfa á þá berjast? Það er hættulegt fyrir menn að berjast þegar þeir eru komnir svona yfir fertugt. Menn geta gert ákveðna hluti þegar þeir eru tvítugir en missa það þegar þeir koma yfir fertugt. Það er ekkert grín að fá högg frá 100 kílóa manni ef maður er ekki upp á sitt besta og þess vegna er ég hættur," sagði Lewis, sem sigraði þá báða á sínum tíma.

Hann segist stundum hugsa til þess að snúa aftur, en segist hafa staðist þá freistingu. "Stundum horfi ég á menn berjast og hugsa með mér - hvað eru þessir menn að gera? Ég verð að sýna þeim hvernig á að gera þetta. En ég er hættur og farinn að snúa mér að öðru," sagði Lewis.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×