Viðskipti erlent

Nýtt hlutafé í Société Generale með afslætti

Daniel Bouton, forstjóri Société Generale.
Daniel Bouton, forstjóri Société Generale. Mynd/AFP

Franski bankinn Société Generale hóf í dag hlutafjárútboð sem reiknað er með að muni bæta eiginfjárstöðu hans um 5,5 milljarða evra, jafnvirði tæpra 550 milljarða íslenskra króna. Athygli vekur að hlutafjárútboðið er með afslætti og heilum 38,9 prósentum undir lokagengi bréfa í bankanum á föstudag í síðustu viku.

Fréttastofa Reuters hefur eftir greinanda hjá Kepler Landsbanki, dótturfyrirtæki Landsbankans í Frakklandi, að verðmiðinn í hlutafjáraukningunni sé afar lágur.

Gengi bréfa í Société Generale féll um sex prósent við upphaf viðskiptadagsins í Frakklandi í dag og stendur það í 73 evrum á hlut.

Erlendir fjölmiðlar segja það sýna þá veiku stöðu sem bankinn sé í. Bankinn tapaði 4,9 milljörðum evra, jafnvirði um 490 milljörðum íslenskra króna, á verðbréfabraski eins miðlara á dögunum. Miðlarinn heitir Jerome Kerviel og veðjaði í nafni bankans á að gengi hlutabréfa myndi hækka á sama tíma og raunin varð önnur. Þetta er eitt umsvifamesta mál af þessum meiði í heimi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×