Formúla 1

600 blaðamenn á frumsýningu Renault

Renault frumsýnir formlega nýjan keppnisbíl sinn í París í dag, en í gær gafst kostendum og velunnurum liðsins færi á að sjá bílinn með eigin augum.

Reyndar hefur bílnum þegar verið ekið á æfingum á Jerez brautinni á Spáni undir handleiðslu Fernando Alonso og fleiri ökumanna. Þannig að frumsýningin bílsins stendur kannski ekki alveg undir nafni sem slík.

Um 600 blaðamenn eru á kynningu Renaulti í París og verður þétt setinn bekkurinn þegar hulunni verður formlega svipt af 2008 bíl Renault. Alonso er að sjálfsögðu á staðnum og liðsfélagi hans og keppinautur, Brasilíumaðurinn Nelson Piquet.

Flavio Briatore hefur látið í veðri vaka að keppnislið verði að hafa ökumann númer eitt og tvö, þannig að annar sé mikilvægari en hinn. Alonso varð tvívegis heimsmeistari með Renault, en sveik síðan lit og fór til McLaren.

Þar mætti hann mikilli andstöðu, eftir að hafa heimtað að fá betri þjónustu en Lewis Hamilton. Hann yfirgaf liðið eftir að hafa uppfyllt eitt ár af þriggja ára samningi og Heikki Kovalainen kom í hans stað.

Piquet hefur látið í veðri vaka að hann ætli sér engan veginn að vera undirtylla Alonso í mótum ársins, en faðir hans er þrefaldur heimsmeistari í Formúlu 1 og ber sama nafn, Nelson Piquet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×