Fótbolti

ÍA gæti mætt Man City í UEFA-bikarkeppninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Manchester City fagna marki í vetur.
Leikmenn Manchester City fagna marki í vetur. Nordic Photos / Getty Images

Það fékkst staðfest í morgun að Manchester City fær þátttökurétt í UEFA-bikarkeppninni sem prúðasta enska liðið sem hafði ekki þegar tyrggt sér sæti í Evrópukeppnunum.

City hafði forystuna á önnur lið í ensku úrvalsdeildinni í þessum efnum en óttast var að rauða spjaldið sem Richard Dunne fékk er City tapaði 8-1 fyrir Middlesbrough í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar hefði kostað þá sætið og að Fulham fengi það í staðinn.

Liðunum 74 sem taka þátt í fyrstu umferð forkeppni UEFA-bikarkeppninnar er raðað eftir landssvæðum og keppir City á norðursvæðinu ásamt liðum frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Lettlandi, Litháen, Eistlandi, Færeyjum, Írlandi, Wales og Lúxemborg.

Þeim liðum er skipt í tvo styrkleikaflokka og er City í vitanlega í efri styrkleikaflokkinum.

Ísland á tvo fulltrúa í keppninni - FH og ÍA. FH er í efri styrkleikaflokkinum og getur því ekki mætt öðrum liðum í þeim flokki í fyrstu umferðinni. ÍA er hins vegar í neðri styrkleikaflokkinum og getur því mætt Manchester City strax í fyrstu umferðinni. Dregið verður í byrjun júní.

Sven-Göran Eriksson, knattspyrnustjóri City, var vitanlega hæstánægður með tíðindin þó svo að það sé alls ekki víst að hann verði áfram hjá félaginu.

„Það er engu líkara að draumur okkar hafi ræst," sagði hann. „Okkur hefur dreymt um að komast í Evrópukeppnina allt tímabilið. Þetta er því skref í rétta átt því markmiðið hjá félaginu er að keppa í Meistaradeildinni og UEFA-bikarkeppnin mjög góður skóli fyrir liðið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×