Fótbolti

Portsmouth hálfri mínútu frá sigri á AC Milan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Younes Kaboul fagnar marki sínu í kvöld.
Younes Kaboul fagnar marki sínu í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Portsmouth og AC milan gerðu í kvöld 2-2 jafntefli í UEFA-bikarkeppninni en Portsmouth komst í 2-0 forystu í leiknum.

Pippo Inzaghi skoraði jöfnunarmarkið þegar hálf mínúta var eftir af uppbótartíma í leiknum. Þá þagnaði Fratton Park en stuðningsmenn Portsmouth höfðu haldið uppi mikilli stemningu allan leikinn og voru afar nálægt því að fagna sigri á stórliði AC Milan. Portsmouth er að leika í fyrsta sinn í Evrópukeppni á þessari leiktíð.

Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleik en besta færið fékk Pippo Inzaghi hjá AC Milan. Andryi Shevchenko átti skot úr aukaspyrnu sem fór af varnarveggnum og fyrir Inzaghi sem stýrði boltanum í stöngina.

Portsmouth var þó síst lakari aðilinn í fyrri hálfleik og komust svo yfir er Younes Kaboul skallaði inn sendingu Glen Johnson frá hægri.

Það mark kom á 62. mínútu og níu mínútum síðar var Kanu að verki með skoti af stuttu færi, aftur eftir fyrirgjöf Johnson.

Ronaldinho var ekki í byrjunarliðinu í kvöld en hann kom inn á sem varamaður á 74. mínútu og var búinn að minnka muninn tíu mínútum síðar. Þá skoraði hann glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu.

Inzaghi skoraði svo laglegt jöfnunarmark eftir að hann tók niður sendingu í teignum og skoraði af stuttu færi.

Hermann Hreiðarsson sat allan leikinn á varamannabekk Portsmouth í kvöld.

Portsmouth er nú með eitt stig í riðlinum eftir tvo leiki en AC Milan er í efsta sæti með sjö stig eftir þrjá leiki. Wolfsburg og Braga eru bæði með þrjú stig en þessi lið mætast einnig í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×