Fótbolti

Man City og Tottenham unnu sína leiki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Benjani og Vincent Kompany fagna marki þess fyrrnefnda í kvöld.
Benjani og Vincent Kompany fagna marki þess fyrrnefnda í kvöld. Nordic Photos / AFP

Manchester City og Tottenham unnu sína leiki í UEFA-bikarkeppninni nú fyrr í kvöld en bæði liðin léku á útivelli.

Jamie O'Hara tryggði Tottenham sigur á NEC Nijmegen í Hollandi með marki á 14. mínútu leiksins. Hann skoraði með skalla af stuttu færi eftir undirbúning Frazier Campbell og Gareth Bale.

Tottenham er nú komið með sex stig í sínum riðli í keppninni og er nánast öruggt með sæti í 32-liða úrslitunum. Liðið mætir Spartak Moskvu á heimavelli í lokaleik sínum í riðlinum.

Þá vann City sigur á þýska liðinu Schalke, 2-0, og er einnig svo gott sem komið í 32-liða úrslitin.

Schalke byrjaði betur og Jermaine Jones komst tvívegis nálægt því að skora í fyrri hálfleik en Joe Hart sá við honum í bæði skiptin.

Daniel Sturridge lagði svo upp mark fyrir Benjani sem skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu og kom City yfir í leiknum. Stephen Ireland náði svo að koma boltanum í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Ireland náði hins vegar svo að skora löglegt mark og tryggja sínum mönnum þar með 2-0 sigur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×