Menning

Dansaðu við mig

Höskuldur Sæmundsson leikur í verkinu ´ásamt Þrúði Vilhjálmsdóttur. Myndin er ekki tekin í tengslum við leikritið Dansaðu við mig.
Höskuldur Sæmundsson leikur í verkinu ´ásamt Þrúði Vilhjálmsdóttur. Myndin er ekki tekin í tengslum við leikritið Dansaðu við mig.

Leikhús andanna, nýstofnaður leikhópur, frumsýnir nýtt íslenskt verk í kvöld. Það er eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann, og kallar hún það Dansaðu við mig. Leikstjóri er Jón Gunnar Þórðarson. Dansaðu við mig er ekki dansverk, þótt það beri þetta heiti. Leikendur eru tveir, Höskuldur Sæmundsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir. Veggspjald sýningarinnar byggir á mótífi úr einu þekktasta endurreisnarmálverki sögunnar, Venus stígur úr hafi sem hefur sterkar tilvísanir í leikritið sjálft.

Sýningin er algerlega sjálfstætt framtak og ekki styrkt af neinum svo um er að ræða hreina hugsjónastarfsemi ungra listamanna sem hafa nú þegar látið talsvert í sér heyra. Leikhópurinn hefur mátt bíða með frumsýninguna vegna bókana forsætisráðuneytis á sölum Iðnó fyrir blaðamannafundi og hefur átt erfitt með að klára æfingar á verkinu. Leikhús andanna ætlar að koma til móts við landann og bjóða sérstakt kreppuverð á 2., 3. og 4. sýningu verksins.

Tónlistahönnuður verksins er ung tónlistarkona, Jarþrúður Karlsdóttir, en hún er að fara að gefa út sína fyrstu plötu eftir örfáa mánuði. Öll tónlist hennar í verkinu er frumsamin og er þetta í fyrsta sinn sem hún tekur sér leikhústónsmíðar fyrir hendur. Hún er þó ekki ókunnug leikhúsi, enda hefur hún starfað sem hljóðmaður í Þjóðleikhúsinu í talsverðan tíma.

Þetta er önnur frumsýning Þórdísar á sex vikum, en nýlega var frumsýnt verk hennar „Fýsn" í Borgarleikhúsinu og er sýningum á því að ljúka. Það var fyrsta frumsýningin undir hatti nýráðins Borgarleikhússtjóra: Magnúsar Geirs Þórðarsonar - sem er einmitt bróðir Jóns Gunnars en hann vakti verulega athygli fyrir sviðsetningu sína á Fool for love, eftir Sam Shepard í fyrra. Þrátt fyrir ungan aldur höfundar og leikstjóra, en þau eru bæði fædd 1980 hafa fyrri verk þeirra verið tilnefnd til níu Grímuverðlauna samanlagt. Meðalaldur allra meðlima Leikhúss andanna er raunar 29 ár.

Dansaðu við mig verður frumsýnt í kvöld en næstu sýningar verða sunnudagskvöld og fimmtudagskvöld í næstu viku. pbb










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.