Fótbolti

UEFA-bikarinn verður Evrópudeildin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Merki hinnar nýju keppni.
Merki hinnar nýju keppni.

UEFA bikarkeppnin mun frá og með næsta keppnistímabili heita Evrópudeildin eða Europa League.

Þetta var tilkynnt í dag en keppnin verður einnig með breyttu fyrirkomulagi á næsta tímabili. Þá verða 48 lið í riðlakeppninni í tólf riðlum, þar sem leikið verður bæði heima og að heiman.

Tvö efstu liðin í hverjum riðli komast svo áfram í 32-liða úrslitin ásamt þeim átta liðum sem verða í þriðja sæti sinna riðla í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

„Ég er viss um að nýja fyrirkomulagið muni efla keppnina. Breytingarnar munu hafa mikil áhrif á þessa söguríku keppni sem er mjög mikilvægt fyrir Knattspyrnusamband Evrópu og evrópska knattspyrnu. Nú fá fleiri stuðningsmenn, leikmenn og félög að kynnast því að taka þátt í Evrópukeppnum," sagði Michel Platini, forseti UEFA.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×