Viðskipti erlent

BBC Worldwide skilar metafkomu

Hinn skemmtilegi Jeremy Clarkson, liðsmaður Top Gear. BBC hefur selt staðfærslu á þættinum til Ástralíu.
Hinn skemmtilegi Jeremy Clarkson, liðsmaður Top Gear. BBC hefur selt staðfærslu á þættinum til Ástralíu.

Á meðan hagnaður margra fyrirtækja gufar upp í dýfunni nú þá heyrir öðruvísi við BBC Worldwide í Bretlandi. Afþreyingafyrirtækið hagnaðist um 117,7 milljónir punda, jafnvirði 17,8 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári og hefur hann aldrei verið meiri.

Mestu munar um mikla sölu á DVD-mynddiskum með sjónvarpsþáttum á borð við Planet Earth og Doctor Who en sala þeirra nam 916 milljónum punda á síðasta ári. Það er þrettán prósenta aukning á milli ára.

Þá hefur sala á hugmyndum til staðfæringar á öðrum mörkuðum gengið vel. Þar á meðal er danskeppnin Dancing With the Stars, sem hefur verið seld til sjónvarpsstöðvar á Indlandi, og Top Gear, sem staðfærður verður í Ástralíu. Þá hefur þáttaröðin Life on Mars, sem sýnd hefur verið hér á landi, verið seld til Spánar en stefnt er að því að láta þættina gerast á áttunda áratug síðustu aldar eftir fráfall Francos.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×