Viðskipti innlent

DeCode aftur komið í sentin

Kári Stefánsson, forstjóri DeCode.
Kári Stefánsson, forstjóri DeCode. Mynd/GVA
DeCode, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, lækkaði um 3,96 prósent á Nasdaq-markaðnum í Bandaríkjunum í dag og endaði í 97 sentum á hlut. Gengið hefur ekki verið lægra síðan 1. júlí síðastliðinn en þá maraði gengi bréfa í fyrirtækinu undir einum dal á hlut í tæpan mánuð. Gengi bréfa í líftæknifyrirtækinu tók dýfu í vor og fór lægst í 77 sent á hlut 20. júní síðastliðinn. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem gengið fór undir dal á hlut í lok dags. Það steig fljótt upp og fór hæst í 1,88 dali á hlut innan dags rétt rúmum mánuði síðar. Stökkið nam þessu samkvæmt 144 prósentum. Eftir það fór gengið að síga hægt og bítandi og hefur nú fallið um 48 prósent frá hæsta gildi í sumar. Það féll svo um rétt rúm 10 prósent í gær. Gengi bréfa í DeCode stóð í 3,68 dölum á hlut um áramótin síðustu. Hæst stóð það í ágúst árið 2000 skömmu eftir skráningu á hlutabréfamarkað en þá fóru hlutabréf í fyrirtækinu á 30,5 dali á hlut innan dags.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×