Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður með nýjan lánaflokk



,,Samþykkt hefur verið reglugerð um nýjan lánaflokk sem heimilar Íbúðalánasjóði lánveitingar til fjármálafyrirtækja í þeim tilgangi að endurfjármagna tímabundið íbúðalán sem þessi fyrirtæki hafa veitt gegn veði í íbúðarhúsnæði," segir í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

Með nýrri reglugerð er stofnaður nýr lánaflokkur hjá Íbúðalánasjóði sem heimilar lánveitingar til banka, sparisjóða og lánafyrirtækja með afhendingu íbúðabréfa til tímabundinnar endurfjármögnunar á íbúðalánum sem þessi fjármálafyrirtæki hafa veitt gegn veði í íbúðarhúsnæði hér á landi. Skilyrði fyrir lánveitingu er að hún sé til þess fallin að tryggja öryggi og framboð lána á íbúðalánamarkaði og eðlilega verðmyndun á íbúðamarkaði.

Allt að 30 milljörðum króna verður varið til lánveitinga í þessum lánaflokki í formi íbúðabréfa sem eingöngu verða notuð í veðlánaviðskiptum við Seðlabanka Íslands.



Félags- og tryggingamálaráðherra mun jafnframt leggja fram á Alþingi í byrjun september nk. frumvarp þar sem lagt verður til að Íbúðalánasjóði verði veitt heimild til að fjármagna og kaupa ný íbúðalán af fjármálafyrirtækjum. Verði frumvarpið að lögum er áætlað að verja til þessa allt að 30 milljörðum króna á þessu og næsta ári.

Tekið er fram að framangreindar lagabreytingar sem fyrirhugaðar eru í september eru óháðar heildarendurskoðun laga um húsnæðismál sem jafnframt er fyrirhuguð á komandi löggjafarþingi sem hefst í október.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×