Erlent

Munaði hársbreidd að þota Blairs væri skotin niður

Óli Tynes skrifar

Aðeins munaði nokkrum augnablikum að ísraelskar orrustuþotur skytu niður einkaþotu Tony Blairs, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands á miðvikudaginn.

Blair er nú sérstakur sendimaður Miðausturlanda kvartettsins svokallaða, sem reynir að stilla til friðar í Mið-Austurlöndum.

Hann var á leið í einkaþotu sinni frá Egyptalandi til fundar í Betlehem í Ísrael. Af einhverjum ástæðum tókst flugstjórnarmiðstöðinni í Ísrael ekki að ná sambandi við þotu Blairs.

Þegar hún hafði ítrekað verið kölluð upp án þess að svara voru tvær orrustuþotur sendar til móts við hana.

Þegar orrustuþoturnar birtust sitt hvorum megin við stjórnklefa einkaþotunnar rönkuðu flugmenn hennar heldur betur við sér, og talsamband náðist.

Breska blaðið The Times segir að aðeins hafi munað nokkrum augnablikum að þota Blairs yrði skotin niður.

Ísraelska fréttastofan JTA segir að yfirvöld þar í landi hafi miklar áhyggjur af því að Hizbolla samtökin í Líbanon, eða önnur samtök óvina Ísraels geri hryðjuverkaárás með flugvélum.

Líkt og gert var í Bandaríkjunum á sínum tíma.

Þess má geta að fyrir nokkrum áratugum skutu Ísraelar niður egypska farþegaþotu sem hafði villst inn í lofthelgi þeirra.

Þá sem nú óttuðust þeir hryðjuverkaárás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×