Fótbolti

Hólmfríður til Kristianstad

Elvar Geir Magnússon skrifar
Hólmfríður á landsliðsæfingu.
Hólmfríður á landsliðsæfingu.

Hólmfríður Magnúsdóttir er orðin fjórði Íslendingurinn í herbúðum sænska liðsins Kristianstad. Hún tók þá ákvörðun í gær að ganga til liðs við félagið frá KR en Fótbolti.net greindi frá því.

„Mér finnst vera kominn tími á að fara út og breyta til. Ég er búin að gera allt hérna heima sem er hægt, búin að vinna alla titla og er mjög sátt við allt sem ég hef gert hérna," sagði Hólmfríður í samtali við Fótbolta.net.

Þetta er mikill liðstyrkur fyrir Kristianstad en þjálfari liðsins er Elísabet Gunnarsdóttir sem tók við nýlega. Þá hefur Erla Steina Arnardóttir leikið með liðinu að undanförnu en Hólmfríður er annar íslenski leikmaðurinn sem gengur til liðs við félagið á stuttum tíma. Guðný Björk Óðinsdóttir kom frá Val á dögunum.

Hólmfríður hefur leikið virkilega vel með íslenska kvennalandsliðinu sem hefur náð mögnuðum árangri. Hómfríður er fædd 1984 og hefur verið einn besti leikmaður úrvalsdeildar kvenna undanfarin ár. Hún var valin leikmaður ársins á lokahófi KSÍ í fyrra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×