Fótbolti

Komið fram við Arshavin sem þræl

Elvar Geir Magnússon skrifar
Andrei Arshavin.
Andrei Arshavin.

Andrei Arshavin er kominn í verkfall hjá félagi sínu, Zenit í Pétursborg. Umboðsmaður leikmannsins segir að komið sé fram við hann hjá félaginu eins og þræl.

Þessi rússneski landsliðsmaður sló rækilega í gegn á Evrópumótinu í sumar og mörg félög reyndu að fá hann. Þar á meðal var tveimur tilboðum frá Barcelona hafnað.

Enska félagið Tottenham er talið leiða kapphlaupið um þennan 27 ára leikmann. Verðmiðinn sem Zenit setur á hann er það hár að félög fælast frá. Arshavin neitaði að spila með Zenit í rússneska bikarnum í gær.

Zenit neitar að taka 27 milljón punda verðmiðann af honum en Tottenham vill ekki með nokkru móti greiða þá upphæð. „Svona var þetta gert í gömlu Sovétríkjunum og svona er þetta núna. Vilji og hagur leikmannsins skiptir þessa menn engu máli. Í þeirra augum er hann þræll," sagði Dennis Lachter, umboðsmaður Arshavin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×