Viðskipti innlent

Jón Tetzchner gaf fjölskyldunni hálfan milljarð

Jón S. von Tetzchner, forstjóri norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera Software, sem gaf fjölskyldu sinni hlutabréf í fyrirtækinu fyrir tæpan hálfan milljarð króna á dögunum.
Jón S. von Tetzchner, forstjóri norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera Software, sem gaf fjölskyldu sinni hlutabréf í fyrirtækinu fyrir tæpan hálfan milljarð króna á dögunum. Mynd/Anton Brink

„Ég á stóra og fína fjölskyldu sem mér þykir vænt um," segir Jón S. von Tetzchner, forstjóri og annar tveggja stofnenda norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera Software.

Jón gaf fyrir nokkru nánustu ættingjum sínum hér heima og í Noregi öll hlutabréf sín í eignarhaldsfélaginu Digital Venture. Félagið á 1,26 milljón hluti í Opera Software, sem býr til og þróar netvafra fyrir tölvur og ýmis tæki og tól sem hægt er að tengjast netinu.

Þar á meðal eru vafrar í Wii leikjatölvurnar frá Nintendo og DS smáleikjatölvurnar.

Fyrirtækið gaf út nýjan vafra, Opera 9.5, fyrir tölvur um miðjan síðasta mánuð.

Miðað við upphafsgengi bréfa í hugbúnaðarfyrirtækinu norska í dag nemur verðmæti gjafarinnar 30,9 milljónum norskra króna, jafnvirði tæpra 463 milljóna íslenskra króna.

Jón sagði í samtali við Markaðinn í morgun að með gjöfinni vildi hann þakka fyrir sig. Hann vildi ekki segja hversu margir ættingjar hefðu fengið gjöfina. Flestir væru þeir í Noregi. „Fólkið var ánægt með þetta," sagði forstjórinn.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×