Erlent

Gaf Ehud Olmert mikið fé

Óli Tynes skrifar
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels.
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels.

Bandarískur kaupsýslumaður sagði fyrir rétti í Ísrael í dag að hann hefði gefið hundruð þúsunda dollara í kosningasjóð Ehuds Olmerts, forsætisráðherra Ísraels.

Hann hafi afhent forsætisráðherranum peningana í reiðufé, í umslögum. Hann hefði hvorki ætlast til né fengið neitt í staðinn.

Morris Talinsky er bandarískur gyðingur. Hann sagði fyrir réttinum að hann hefði talið Olmert gott leiðtogaefni fyrir Ísrael.

Hann gaf Olmert peninga þegar hann bauð sig fram sem borgarstjóri í Jerúsalem árið 1993 og aftur 1998. Olmert vann í bæði skipti.

Talinsky studdi Olmert einnig í baráttu hans til að verða formaður Likud bandalagsins árið 1999 og í innanflokkskosningum árið 2002.

Lögfróðir menn segja að rannsakendur vilji fá að vita hvort peningagjafirnar hafi verið gefnar upp til þar til bærra yfirvalda, og hvort forsætisráðherrann hafi endurgoldið þær á einhvern hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×