Menning

Gefur út tónlist úr leikriti

Gefur út sjálf. Jarðþrúður sér sjálf um útgáfu tónlistarinnar úr leikverkinu Dansaðu við mig sem kemur út í næstu viku.
Gefur út sjálf. Jarðþrúður sér sjálf um útgáfu tónlistarinnar úr leikverkinu Dansaðu við mig sem kemur út í næstu viku.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég sem tónlist við leikverk," segir Jarþrúður Karlsdóttir sem gefur úr plötu með tónlistinni úr leikritinu Dansaðu við mig, en verkið er sýnt í Iðnó um þessar mundir.

Jarðþrúður hefur samið tónlist um árabil og meðal annars sungið með hljómsveitinni Thunder cats auk þess sem hún hefur starfað sem hljóðmaður í Þjóðleikhúsinu um nokkurt skeið. „Ég hef samið alls konar tónlist í mörg ár, en það var allt öðruvísi að semja tónlist fyrir leikrit því hún þarf fyrst og fremst að falla að verkinu. Það var töluverð vinna, aðallega því ég hef svo mikla fullkomnunaráráttu, en rosalega skemmtilegt," segir Jarþrúður sem syngur lögin sjálf og sér að mestu leyti um hljóðfæraleikinn á plötunni. „Þetta er frekar minimalísk tónlist, en ég bætti aðeins við undirleikinn á plötunni svo hún standi betur ein og sér," bætir hún við.

Auk tónlistarstarfanna lætur Jarþrúður sig varða þjóðfélagsmálin og er félagi í samtökunum Undirrót sem urðu til í kjölfar kreppunnar. „Kjarninn í hópnum er átta manns og við hvetjum fólk til að mótmæla á friðsamlegan hátt, en allir sem vilja leggja okkur lið eru velkomnir. Mér finnst ástandið í samfélaginu það rosalegt að ég gat ekki bara setið heima og gert ekki neitt," segir Jarþrúður að lokum, en plata hennar er væntanleg í verslanir í næstu viku. - ag












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.