Erlent

Palestínskar stúlkur féllu í flugskeytaárás

Guðjón Helgason skrifar
Herskáir Palestínumenn á Gaza-svæðinu með flugskeyti sem skjóta á yfir landamærin og á ísraelsk skotmörk.
Herskáir Palestínumenn á Gaza-svæðinu með flugskeyti sem skjóta á yfir landamærin og á ísraelsk skotmörk. MYND/AP

Tvær palestínskar stúlkur týndu lífi þegar flugskeyti herskárra Palestínumanna skall fyrir mistök á húsi þeirra á Gaza-svæðinu í dag. Stúlkurnar voru 5 og 13 ára. Flugskeytin áttu að springa handan landamæranna í Ísrael.

Hálfs árs vopnahlé milli Ísraela og Hamas-samtakanna, sem ráða lögum og lofum á Gaza, rann út fyrir viku en það var ekki endurnýjað. Flugskeytaárásum herskárra Palestínumanna frá Gaza á ísraelskt landsvæði hefur fjölgað síðan þá. Ísraelar hóta loftárásum verði þeim ekki hætt.

Þrátt fyrir það opnuðu Ísraelar fyrir flutning á nauðsynjum til Gaza í dag. Landamærunum þangað var lokað fyrir einu og hálfu ári. Þau hafa þó verið opnuð nokkrum sinnum síðan þá en í stuttan tíma í senn. Alþjóðasamfélagið hefur þrýst á flutning á matvælum og lyfjum á svæðið síðustu daga en þar stefni í vandræði vegna lokun landamæranna. Fjórir af hverjum fimm Gazabúum treysti á matvælagjafir og birgðageymslur Sameinuðu þjóðanna á Gaza séu nú nær tómar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×