Menning

100 myndir frá 27 löndum

Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi hátíðarinnar, ásamt fjölmiðlafulltrúanum Ásgeiri H. Ingólfssyni í upplýsingamiðstöðinni í Iðu.
Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi hátíðarinnar, ásamt fjölmiðlafulltrúanum Ásgeiri H. Ingólfssyni í upplýsingamiðstöðinni í Iðu. MYND/ANTON

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, hefst annað kvöld með sýningu norsku opnunarmyndarinnar O"Horten í Regnboganum. Þetta verður í fimmta sinn sem hátíðin er haldin og geta gestir nú valið úr um hundrað myndum, þar af 74 í fullri lengd, frá 27 löndum.

Hátíðin fer fram í Regnboganum, Iðnó og Norræna húsinu. Myndunum er skipt niður í átta flokka, þar á meðal Vitranir þar sem fjórtán ungir og efnilegir leikstjórar keppa um aðalverðlaunin, Gyllta lundann.

Hátt í þrjú hundruð manns koma hingað til lands í tengslum við hátíðina, þar af fagfólk úr kvikmyndabransanum og blaðamenn frá tímaritunum Variety, Hollywood Reporter og Screen.



Tveir nýir flokkarTveir nýir flokkar verða á hátíðinni, Nýr heimur og Hljóð í mynd. Í þeim fyrrnefnda verða sýndar sjö myndir þar sem lögð er áhersla á umhverfismál af ýmsu tagi. „Við reynum að fjalla um það sem máli skiptir í samfélaginu og með þessum flokki viljum við koma upplýsingum á framfæri til fólks," segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi hátíðarinnar. Í tengslum við flokkinn verður haldið málþing um veggjakrot þar sem Jakob Frímann Magnússon heldur erindi.

Í flokknum Hljóð í mynd verður samspili kvikmynda og tónlistar gerð sérstök skil. „Ísland er þekkt sem tónlistarland og það hefur verið mikil gerjun í heimildarmyndagerð um tónlist þannig að við ákváðum að bæta þessum flokki við," segir Hrönn. Haldin verður ráðstefna um kvikmyndatónlist í tengslum við hátíðina og hafa fjölmargir boðað komu sína á hana.

Grískur heiðursgesturHeiðursgestur hátíðarinnar í ár er hinn grískættaði Costa-Gavras, einn pólitískasti leikstjóri samtímans, sem fékk Óskarinn árið 1983 fyrir handrit sitt að myndinni Missing. Íranska leikkonan Shirin Neshat verður verðlaunuð fyrir framúrskarandi listræna kvikmyndasýn og verða verk hennar bæði sýnd á hátíðinni og í Listasafni Íslands. Einnig verða haldnir ýmsir sérviðburðir, þar á meðal sýndar heimildarmyndir fyrir börn og unglinga ásamt miðnæturbíói og bílabíói, auk þess sem Páll Óskar býður fólki á Kung-Fu kvöld.

Friðrik Þór Friðriksson mun jafnframt sýna brot úr væntanlegri heimildarmynd sinni, Sólskinsdrengur, sem fjallar um leit móður einhverfs drengs að úrræðum fyrir son sinn.

Miðasala í fullum gangiMiðasala á hátíðina, sem stendur yfir til 5. október, fer fram á midi.is og riff.is. Einnig verður hægt að nálgast miða í upplýsingamiðstöðvum í Iðu við Lækjargötu og á sjálfboðaliðamiðstöð á Laugavegi 35. Yfir tuttugu þúsund manns sóttu hátíðina í fyrra og er búist við álíka miklum fjölda í ár.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.