Innlent

Greiðslufrest breytt einhliða

Guðjón Helgason skrifar

Byko, Elko, Húsgagnahöllin og Intersport hafa ákveðið einhliða að lengja greiðslufrest til birgja og þjónustuaðila frá og með næsta mánuði. Þetta var tilkynnt bréflega. Margir birgjar eru ævir og íhugar einn að krefja fyrirtækin um staðgreiðslu.

Fréttastofa hefur eitt slíkt bréf undir höndum. Það var stílað á birgja og þjónustuaðila Byko hf. Yfirskriftin var: Samræmdir greiðslufrestir - aukin skilvirkni.

Í bréfinu segir að til að tryggja skilvirkari greiðslur til birgja og þjónustuaðila Byko hf sé nauðsyn á rýmri tímatakmörkum í samþykktarferli innan fyrirtækisins. Því hafi verið ákveðið að samræma alla greiðslufresti og verði allir reikningar greiddir sextíu dögum eftir lok úttektarmánaðar.

Breyting þessi öðlist gildi frá og með úttektarmánuðinum júní og gildi jafnframt fyrir Intersport, ELKO og Húsgagnahöllina.

Fyrirtækin fjögur eru öll dótturfyrirtæki Norvik hf.

Greiðslufrestur hefur verið mislangur milli birgja samkvæmt upplýsingum fréttastofu, oft mun styttri en sextíu dagar. Margir birgjar og þjónustuaðilar munu ævir vegna þessarar einhliða ákvörðunar. Samkvæmt heimildum fréttastofu mun að minnsta kosti einn þeirra íhuga að krefja fyritækin um staðgreiðslu sem svar við bréfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×