Erlent

Rifist um sund stráka og stelpna

Óli Tynes skrifar
Splass.
Splass.

Borgarstjórnarflokkarnir tveir sem stýra Osló eru ósammála um hvort eigi að hafa kynjaskiptingu í leikfimi og sundi í skólum borgarinnar. Af tillitssemi við múslima hefur Möllergateskolen í höfuðborginni stráka og stelpur sitt í hvoru lagi við þessa iðju.

Talsmaður Framfaraflokksins, Mazyar Keshvari segir að í Noregi séu konur og karlar jafn rétthá og eigi að taka þátt í bæði skóla- og atvinnulífi á sama grundvelli. Því sé rangt að hafa kynjaskiptingu í skólum.

Torger Ødegaard í hægri flokknum er á annarri skoðun. Hann bendir á að Möllergateskólinn hafi haft þennan háttinn á í tíu ár. Réttast sé að láta skólana sjálfa ákveða fyrirkomulagið í samræmi við aðstæður á hverjum stað.

Aðrir flokkar hafa blandað sér í slaginn. Talsmaður verkamannaflokksins segir þannig að þetta snúist um að sýna minnihlutahópum virðingu og leyfa þeim að iðka trú sína og hefðir.

Þessu hafnar Keshvari. Hann segir að það hljóti að vera öllum ljóst að norskt samfélag láti ekki undan sérkröfum minnihlutahópa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×