Menning

Píanóverk Þorkels í Salnum

Píanistinn og tónskáldið. Kristín Jónína Taylor og Þorkell Sigurbjörnsson við æfingar í Salnum.Fréttablaðið/Arnþór
Píanistinn og tónskáldið. Kristín Jónína Taylor og Þorkell Sigurbjörnsson við æfingar í Salnum.Fréttablaðið/Arnþór

Tónleikar til heiðurs tónskáldinu Þorkeli Sigurbjörnssyni sjötugum fara fram í Salnum annað kvöld. Þar mun píanóleikarinn Kristín Jónína Taylor leika öll verk Þorkels fyrir píanó.

Kristín, sem á ættir að rekja bæði til Íslands og Bandaríkjanna, er prófessor við Waldorf College í Iowa-ríki og deildarstjóri tónlistardeildar skólans. Hún hefur mikið fjallað um norræna tónlist á fræðilegum vettvangi; doktorsritgerð hennar fjallaði um píanókonsert Jóns Nordal og hún hefur einnig lagt áherslu á að flytja norræna tónlist á tónleikum sínum. „Ég kynntist Þorkeli fyrir nokkrum árum þegar ég var stödd hér á landi við rannsóknarvinnu,“ segir Kristín. „Það leið ekki á löngu þar til ég heillaðist algerlega af verkum hans; sérlega kann ég að meta húmorinn sem er gegnumgangandi í tónlistinni.“

Kristín kveður það afar ánægjulegt að fá tækifæri til þess að heiðra Þorkel á þessum tímamótum. „Ég held að allir íslenskir tónlistarmenn hafi orðið fyrir áhrifum frá Þorkeli og að áhrif hans á íslenskt menningarlíf séu meiri en margan grunar. Til að mynda hafa flestir Íslendingar sem hafa farið í kirkju sungið sálm eftir hann. Það er mér því mikill heiður og sannkölluð ánægja að fá að leika tónlist hans við þetta tækifæri.“

Tónleikarnir hefjast kl. 20 annað kvöld. Miðaverð er 2.500 kr.- vþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.