Sport

Mikilvægasti breski bardaginn til þessa

NordicPhotos/GettyImages

Ricky Hatton fullyrðir að það yrði stærsti sigur Breta í hnefaleikasögunni ef hann næði að leggja Floyd Mayweather að velli í bardaga þeirra í Las Vegas annað kvöld.

"Ef ég vinn, verður það stærsti sigur Breta í hnefaleikasögunni. Við höfum átt marga heimsmeistara, en ekki marga sem geta sagt að þeir séu bestir í heiminum pund fyrir pund. Þetta er því risabardagi," sagði Hatton.

Hann nýtur mikils stuðnings í Bandaríkjunum þrátt fyrir að vera á útivelli og sagt er að á milli 10-15 þúsund landa hans muni fylgja honum til Las Vegas óháð því hvort þeir eiga miða á bardagann eða ekki.

Oscar de la Hoya sér um að skipuleggja bardagann stóra annað kvöld og hann segir að um 180 lönd sýni hann í beinni útsendingu og þar af sé talið að um 50 milljónir manna í Kína einu og saman muni stilla á bardagann í sjónvarpi.

Þeir 16,800 miðar sem voru í boði í MGM Grand höllina seldust upp á hálftíma og ganga þeir nú kaupum og sölum á hátt í milljón króna stykkið á uppboðssíðum á netinu. Heildargróðinn af miðasölunni á MGM var í kring um 700 milljónir króna, en þessi tala á eftir að hækka gríðarlega ef tekið er mið af svartamarkaðssölu.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×