Erlent

Putin vann stórsigur

Sameinað Rússland - flokkur Pútíns forseta - hlaut ríflega sextíu prósent atkvæða í rússnesku kosningunum í dag. Samkvæmt útgönguspá sem var birt nú undir kvöld komast fjórir flokkar á rússneska þingið.

Tveir flokkar sem styðja Pútín forseta hafa nægan þingmeirihluta til að breyta stjórnarskránni. Pútín forseti var í góðu skapi þegar hann kom á kjörstað í Moskvu með konu sinni Ljúdmílu.

Meðal annarra kunnuglegra andlita á kjörstað voru Gorbatsjov fyrrum forseti Sovétríkjanna og Vladimir Sírinovskí, sem útgönguspár segja að sé kominn með yfir sjö prósent þröskuldinn til að komast á þing.

Kasparov er hins vegar ekki á kjörseðlinum með sinn flokk; honum tókst ekki einu sinni að skrá flokkinn til þátttöku.

Samkvæmt útgönguspám verður flokkur Pútíns með 61 prósent atkvæða. Þrír aðrir flokkar komast á þing, þeirra á meðal annar flokkur sem styður Pútín.

Á Íslandi greiddu rússneskir ríkisborgarar atkvæði í rússnesku ræðismannsskrifstofunni við Túngötu í Reykjavík í dag.

Hér á landi búa rúmlega 400 Rússar, þar af 200 með kosningarétt. Um miðjan dag var stöðugur straumur fólks að neyta atkvæðisréttar síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×