Viðskipti innlent

Afkoma Icelandic Group undir væntingum

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandic Group.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandic Group.

Icelandic Group tapaði rúmum 2,5 milljónum evra, jafnvirði rúmra 220 milljóna íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi samanborið við 953 þúsunda evra hagnað á sama tíma í fyrra. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandic Group, segir áætlanir um hagræðingu og rekstrarhagnað á árinu ekki hafa gengið eftir.

Tapið á fyrstu níu mánuðum ársins nemur rúmum 300 milljónum evra.

Rekstrarhagnaðurinn á síðasta fjórðungi nam rétt rúmum 3,7 milljónum evra sem er rúmlega helmingi minna en á sama tíma í fyrra.

Í uppgjörinu kemur fram að vörusala á þriðja fjórðungi hafi numið 327,5 milljónum evra, sem er rúmum 40 þúsund evrum minna en í fyrra.

„Okkar áætlanir gerðu ráð fyrir því að hagræðingin sem unnið hefur verið að frá júlímánuði 2006 skilaði sér í betra uppgjöri á þessu ári. Svo er ekki og hafa margvíslegar ástæður orðið þess valdandi að við erum enn að. Nú liggur fyrir að hagræðingin mun ekki koma til fullra áhrifa fyrr en í upphafi næsta árs," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri, og bendir á að rekstur Pickenpack Gelmer hafi valdið miklum vonbrigðum en afkoman þar hafi verið slök og langt undir áætlunum. Félagið er hluti af Icelandic Holding Germany sem unnið er að sölu á.Veðurfar í Bretlandi hafði áhrif á sölu í fjórðungnum og einnig hafi dregið úr eftirspurn í lok fjórðungsins í Bandaríkjum.

„Það er bjargföst trú mín að hagræðingarferlið, sem við fórum af stað með í júlí og ágúst á síðasta ári muni skila hluthöfum auknum verðmætum og enn betra félagi," heldur Björgólfur áfram og bætir við að ljóst sé að markmið um rekstrarhagnað náist ekki á árinu.

Uppgjör Icelandic Group






Fleiri fréttir

Sjá meira


×