Fótbolti

Eiður Smári: Henry þarf tíma til að aðlagast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári með Thierry Henry og Lionel Messi á æfingu með Barcelona.
Eiður Smári með Thierry Henry og Lionel Messi á æfingu með Barcelona. Nordic Photos / Getty Images

Eiður Smári Guðjohnsen segir að Thierry Henry gangi nú í gegnum það sama og hann gerði á síðustu leiktíð, að aðlagast spænska boltanum eftir mörg ár á Englandi.

„Það er eðlilegt að gefa Henry tíma til að aðlagast nýrri deild. Það er munur á ensku deildinni og þeirri spænsku,“ sagði Eiður Smári í viðtali við spænska útvarpsstöð.

Hann segir að hann sé kominn í þá leikstöðu sem honum líður best í. „Á síðustu leiktíð varð ég að spila sem framherji vegna meiðsla Samuel Eto'o en nú er ég kominn aftur á þann stað sem mér líður best á.“

Eiður var í byrjunarliði Barcelona gegn Rangers í Meistaradeildinni og kom inn á sem varamaður í spænsku deildinni um helgina. Í bæði skiptin lék hann á miðjunni.

Hann bætti því við að hann ætti erfitt með að skilja þær gagnrýnisraddir sem beinst hafa gegn Brasilíumanninnum Ronaldinho.

„Hann er frábær leikmaður og hefur lengi verið besti knattspyrnumaður heims. Ég er á þeirri skoðun að það eigi ekki að gagnrýna hann nú þó svo að hann sé ekki upp á sitt besta einmitt núna.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×