Erlent

Engar myndir fundust af Madeleine

Síðasta myndin sem foreldrar Madeleine tóku af henni var við sundlaugarbakka hótelsins í Praia da Luz.
Síðasta myndin sem foreldrar Madeleine tóku af henni var við sundlaugarbakka hótelsins í Praia da Luz. MYND/AFP
Portúgalska lögreglan hefur ekki fundið neinar vísbendingar um Madeleine McCann meðal efnis á 150 tölvum grunaðra barnaníðinga . Vonast hafði verið til að komast á snoðir um hvarf stúlkunnar í tengslum við stærstu rannsókn lögreglunnar á barnaníðingum í landinu til þessa.

Um 150 tölvur grunaðra barnaníðinga voru teknar á 80 heimilum í síðustu viku.

Ein kenningin um hvarf stúlkunnar er sú að henni hafi verið rænt af barnaníðingi. Vonir um að lögreglunni tækist að komast á snoðir Maddie í þessari rannsókn urðu því að engu.

Samkvæmt upplýsingum portúgalska dagblaðsins Correio de Manha voru margar myndanna af ungum börnum sem líktust Madeleine.

Nýjasta tækni var notuð til að bera kennsl á sumar myndanna þar sem barnaníðingarnir höfðu brenglað þær til að breiða yfir ódæðin.

Clarence Mitchell talsmaður McCann fjölskyldunnar sagði að niðurstaðan væri sú að þessi rannsókn mundi ekki leiða neitt af sér um hvarf stúlkunnar.

Lögreglan í Portúgal hefur nú fengið niðurstöður rannsóknarstofu í Birmingham af hári og líkamsvökva sem talinn er vera af Madeleine. Þær hafa ekki verið kynntar fjölmiðlum. Sýnishornin voru tekin úr bílaleigubíl sem McCann fjölskyldan leigði í kjölfar hvarfs dóttur þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×