Viðskipti erlent

Afkoma Goldman Sachs umfram spár

Lloyd Blankfein, forstjóri Goldman Sachs, sem skilaði þriðja mesta hagnaði í sögu bankans á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir hræringar á fjármálamörkuðum.
Lloyd Blankfein, forstjóri Goldman Sachs, sem skilaði þriðja mesta hagnaði í sögu bankans á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir hræringar á fjármálamörkuðum. Mynd/AFP

Hagnaður bandaríska bankans Goldman Sachs nam 2,85 milljörðum dala, jafnvirði rúmra 180 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi. Þetta er 79 prósenta aukning frá sama tíma í fyrra og sá þriðji besti í 138 ára sögu bankans. Ólíkt flestum bönkum spáði Goldman Sachs samdrætti á fasteignalánamarkaði í Bandaríkjunum og stóð því ekki berskjaldur gagnvart þrengingunum.

Á sama tíma í fyrra nam hagnaður bankans 1,59 milljörðum dala. Hagnaður á hlut nemur samkvæmt þessu 6,13 dölum á hlut samanborið við 3,26 dali á hlut í fyrra. Bloomberg hafði hins vegar spáð því að hagnaðurinn myndi nema 4,35 dölum á hlut og afkoman því talsvert yfir væntingum markaðsaðila. Þetta er jafnframt sjöundi fjórðungurinn í röð sem afkoman er yfir væntingum.

Fjármálaskýrendur eru einu máli um að staða Goldmans Sachs sé afar sterk. Fyrirtækið hafi fingur í hverju máli og geti stjórnendur bankans því áttað sig á stöðu mála með stuttum fyrirvara.

Þannig hafi bankinn verið fljótur að átta sig á því að samdráttur væri yfirvofandi á fasteignalánamarkaði og færði fé sitt til með þessum árangri. Í ofanálag tvöfölduðust tekjur bankans af veltu með hlutabréf og hafa þær aldrei verið hærri, að sögn Bloomberg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×