Viðskipti erlent

Störfum fækkaði í Bandaríkjunum í ágúst

Bandarískir starfsmenn. Þeim fækkaði meira en gert var ráð fyrir í síðasta mánuði.
Bandarískir starfsmenn. Þeim fækkaði meira en gert var ráð fyrir í síðasta mánuði. Mynd/AFP

Nýbirtar tölur frá bandaríska vinnumálastofnunni benda til að fyrirtæki þar í landi hafi sagt upp 4.000 starfsmönnum í nýliðnum mánuði. Þetta er þvert á væntingar enda talið að fyrirtæki myndu halda áfram að ráða til sín fleira starfsfólk. Niðursveiflu á fjármálamörkuðum vegna vanskila á fasteignalánum í vor er kennt um ástandið.

Vinnumálastofnunin hefur sömuleiðis birt endanlegar tölur um fjölda starfa í júní og júlí en þær benda til að störfum hafi fjölgað minna en gert var ráð fyrir.

Atvinnuleysi er hins vegar óbreytt á milli mánaða í ágúst, eða 4,6 prósent.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir ráðgjafa hjá bandaríska fjármálafyrirtækinu Oppenheimer & Co. að ástandið sé skelfilegt: „Þetta er hræðilegt...Mér sýnist við stefna klárlega inn í samdráttarskeið," segir hann.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×