Viðskipti innlent

Óbreyttir stýrivextir í Ástralíu

Fastlega er reiknað með því að seðlabankar hér á landi, í Bretlandi, Kanada og á evrusvæðinu fylgi í fótspor ástralska seðlabankans og haldi stýrivöxtum óbreyttum.
Fastlega er reiknað með því að seðlabankar hér á landi, í Bretlandi, Kanada og á evrusvæðinu fylgi í fótspor ástralska seðlabankans og haldi stýrivöxtum óbreyttum.

Seðlabanki Ástralíu hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 6,5 prósentum að sinni vegna aðstæðna á fjármálamörkuðum. Greinendur þar í landi hafa almennt reiknað með því að bankinn hækki vextina fyrir árslok þar sem hagvöxtur hafi verið mjög góður á árinu, 0,9 prósent á öðrum ársfjórðungi, sem er umfram væntingar.

Reiknað er með því að hagvöxtur verði 4,3 prósent í Ástralíu á árinu. Gangi það eftir hefur hann ekki verið meiri í þrjú ár.

Seðlabankinn óttaðist hins vegar að vaxtahækkun gæti haft neikvæðar afleiðingar í för með sér þar sem mjög hafi þrengt að fjármálafyrirtækjum vegna hækkandi vaxtaálags í kjölfar niðursveifla á lánamarkaði upp á síðkastið.

Vaxtaákvörðunarfundur eru í Kanada í dag en á evrusvæðinu, í Bretlandi og hér á landi á morgun. Gert er ráð fyrir því að bankarnir fylgi allir í fótspor ástralska seðlabankans og haldi stýrivöxtum óbreyttum þrátt fyrir að einhverjir greinenda vilji fremur sjá vaxtalækkun.

Vaxtaákvörðunardagur er í Bandaríkjunum 18. september næstkomandi en flestir greinendur hafa upp á síðkastið gert ráð fyrir því að bankinn muni lækka stýrivextina. Gangi það eftir verður þetta fyrsta stýrivaxtalækkunin þar í landi í þrjú ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×