Viðskipti erlent

Hræringar á Wall Street

Hamagangur á Wall Street. Gengi bréfa í bandarískum fjármálafyrirtækjum lækkaði á markaði í Bandaríkjunum í dag eftir að gert var ráð fyrir minni hagnaði þeirra á árinu í kjölfar samdráttar á bandarískum fasteignalánamarkaði.
Hamagangur á Wall Street. Gengi bréfa í bandarískum fjármálafyrirtækjum lækkaði á markaði í Bandaríkjunum í dag eftir að gert var ráð fyrir minni hagnaði þeirra á árinu í kjölfar samdráttar á bandarískum fasteignalánamarkaði. Mynd/AFP

Gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum lækkaði lítillega við opnun fjármálamarkaða vestanhafs í dag en óttast er að háir vextir muni draga úr afkomu fjármálafyrirtækja auk þess sem talið er að samdráttur á bandarískum fasteignamarkaði geti hægt á hagvexti. Hagvísar í Bandaríkjunum benda til að hagvöxtur var umfram væntingar á öðrum ársfjórðungi í Bandaríkjunum þótt úr dragi á seinni hluta árs.

Gengi bréfa í bandarísku bönkunum Goldman Sachs, Morgan Stanley, Merrill Lynch og Bear Sterns lækkaði við opnun viðskipta á hlutabréfamörkuðum vestra eftir að fjárfestingabankinn Lehman Brothers Holdings birti uppfærða afkomuspá sína fyrir árið en þar er gert ráð fyrir að hagnaður bankans muni dragast saman á árinu vegna samdráttarins í Bandaríkjunum. Þá lækkaði sömuleiðis gengi bréfa í verslanakeðjurisanum Wal-Mart eftir að Merrill Lynch mælti með því í nýju verðmati sínu að fjárfestar seldu bréf sín í félaginu.

Vísitölurnar hafa sveiflast nokkuð og gætir því enn nokkurs taugatitrings í röðum fjárfesta, að sögn fréttaveitu Bloomberg.

Dow Jones-vísitalan hefur lækkað um 0,39 prósent og S&P-vísitalan um 9,29 prósent. Hins vegar hefur Nasdaq-vísitalan hækkað um 0,36 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×