Viðskipti erlent

EMI skiptir um eigendur í september

Coldplay, sem gefur út tónlist sína undir merkjum EMI. Í næsta mánuði taka nýir eigendur við útgáfufélaginu.
Coldplay, sem gefur út tónlist sína undir merkjum EMI. Í næsta mánuði taka nýir eigendur við útgáfufélaginu. Mynd/AP

Eric Nicoli, forstjóri breska útgáfurisans EMI, ætlar að yfirgefa forstjórastólinn þegar nýir eigendur taka við félaginu í næsta mánuði. Félagið hefur átt við mikinn rekstrarvanda að stríða vegna minnkandi geisladiskasölu og fór í söluferli fyrr á árinu. Úr varð að fjárfestingafélagið Terra Firma keypti útgáfufélagið í maí fyrir 2,4 milljarða punda, jafnvirði rúmra 300 milljarða íslenskra króna.

Samkvæmt samkomulagi við nýja eigendur mun Nicoli láta af störfum 18. september næstkomandi en sama dag ganga kaupin í gegn og verður EMI afskráð úr bresku kauphöllinni í Lundúnum.

Chris Rolin, einn stjórnenda Terra Firma, tekur við forstjórastólnum af Nicoli.

Á meðal tónlistarmanna og hljómsveita sem gefa út undir merkjum EMI eru stórstjörnur á borð við Íslandsvinina í Coldplay, Robbie Williams og Kylie Minogue.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×