Erlent

Foreldrar Madeleine vilja kæra portúgalska sjónvarpskonu

Foreldrar Madeleine McCann.
Foreldrar Madeleine McCann. MYND/AFP
Foreldrar Madeleine McCann hafa hótað að lögsækja portúgalska fréttakonu fyrir ærumeiðandi ummæli sem hún lét falla í beinni sjónvarpsútsendingu í gær. Þar gaf fréttakonan í skyn að Kate McCann, móðir Madeleine, bæri ábyrgð á hvarfi stúlkunnar.

Frá þessu er greint í breska dagblaðinu The Mirror. Í sjónvarpsútsendingunni gaf fréttakonan í skyn að það væri ekki útilokað að foreldrar Madeleine ættu sök á hvarfi hennar og að móðir hennar hafi jafnvel myrt hana. Þetta fór að vonum mjög illa í foreldra Madeleine sem íhuga nú að kæra ummælin.

Fréttakonan, Sandra Felgueiras, segist ekki hafa verið að gefa neitt í skyn. Með ummælum sínum hafi hún verið að vísa í fréttir þessa efnis að lögreglan í Portúgal telji nú líklegt að Madeleine hafi dáið á hótelherbergi sínu.

Ekkert hefur spurst til hinnar fjögurra ára gömlu Madeleine McCann eftir að hún hvarf á hótelherbergi sínu fyrir tæpum fjórum mánuðum.

Lögreglan í Portúgal telur samkvæmt heimildarmanni The Mirror að Madeleine hafi óvart verið drepin og um sé að ræða hræðilegt slys. Heimildarmaðurinn segir ennfremur að lögreglan hafi undir höndum gögn sem sanni þetta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×