Viðskipti erlent

Vísitölur lækka í Asíu og Evrópu

Miðlari í kauphöllinni í Sjanghæ í Kína.
Miðlari í kauphöllinni í Sjanghæ í Kína. Mynd/AFP

Nokkur lækkun var á hlutabréfamörkuðum í Asíu og Evrópu í dag. Þetta er í takti við lækkun á bandaríska markaðnum í gær. Gengi Nikkei-vísitölunnar í Japan lækkaði um 2,2 prósent við lokun markaða þar í landi í morgun en vísitalan í Taívan fór niður um 3,6 prósent. Hin breska FTSE-100 vísitalan hefur lækkað um eitt prósent það sem af er dags.

Ástæðurnar fyrir lækkuninni nú eru þær sömu og síðustu daga; samdráttur á bandarískum fasteignalánamarkaði sem hafði áhrif á lánastofnanir þar í landi sem hefur leitt til lausafjárskorts. En þá spilar inn í að fyrirtæki í Bandaríkjunum, ekki síst Wal-Mart og byggingavörukeðjan Home Depot, reikna með verri afkomu á fjórðungnum þar eð líklegt þyki að neytendur haldi að sér höndum.

Helstu vísitölur lækkuðu talsvert í Bandaríkjunum í gær. Þannig lækkaði Dow Jones um heil 1,6 prósent og Nasdaq-vísitalan um 1,7 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×