Viðskipti erlent

Áfram lækkun á bandarískum hlutabréfamarkaði

Frá hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum. Gengi helstu vísitala er á niðurleið vestanhafs annan daginn í röð.
Frá hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum. Gengi helstu vísitala er á niðurleið vestanhafs annan daginn í röð. Mynd/AFP

Lækkun hélt áfram þegar opnað var fyrir viðskipti á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag. Dow Jones-vísitalan hefur lækkað um rúm 0,7 prósent, Standard & Poor um 0,8 prósent og Nasdaq-vísitalan um rúmt prósent. Lækkun hefur verið víða á hlutabréfamarkaði víða um heim.

Seðlabankar í Bandaríkjunum og Evrópu hafa brugðist við með því að opna sjóði sína og veita fjármálafyrirtækjum vilyrði fyrir lánum á góðum kjörum til að koma í veg fyrir lausafjárskort, að sögn fréttastofu Associated Press.

Evrópski seðlabankinn sagði í gær að hann ætlaði að veita fjármálafyrirtækjum 61 milljarðs evra lán, jafnvirði rúmra 5.500 milljarða íslenskra króna, til að koma til móts við þrengingarnar og hindra að áhrifanna gæti í evrópsku efnahagslífi. Þetta er annar dagurinn í röð sem seðlabankinn opnar sjóði sína með þessum hætti en í gær sagðist hann ætla að veita fyrirtækjunum 95 milljarða evra lán.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×