Erlent

Fréttamaður laug í beinni útsendingu

Óli Tynes skrifar
Jeppe Nybroe.
Jeppe Nybroe.

Einn af stjörnufréttamönnum danska sjónvarpsins hefur orðið uppvís að því að ljúga í beinni útsendingu. Fréttastjóri hans segir málið mjög alvarlegt. Hann hefur veitt fréttamanninum skriflega áminningu og sent hann í þriggja mánaða launalaust frí. Fréttamaðurinn hefur viðurkennt sekt sína og segist harmi sleginn yfir heimsku sinni.

Sjónvarpsáhorfendur héldu að þeir væru að upplifa sögulega stund þegar Jeppe Nybroe birtist á skjánum í skotheldu vesti og með hjálm og lýsti því yfir að hann væri nú að fylgjast með síðustu dönsku hermönnunum sem voru að yfirgefa Írak.

Í raun voru myndirnar teknar deginum áður í Kúveit. Bílalestin sem Nybroe lýsti var ekki að koma frá Írak heldur að fara til Íraks til þess að sækja síðustu dönsku hermennina. Fréttastofa danska sjónvarpsins hefur beðið áhorfendur sína afsökunar. Fréttin öll hefur verið dregin til baka og er ekki lengur á fréttavef sjónvarpsins.

Jeppe Nybroe segir að hann eigi erfitt verk fyrir höndum að vinna traust áhorfenda sinna á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×