Innlent

Ísland fremst Evrópulanda í lífsgæðum

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Ísland leiðir lista yfir þau Evrópulönd sem eru færust um að sjá þegnum sínum fyrir löngu og hamingjusömu lífi. Könnunin á þrjátíu löndum álfunnar leiddi í ljós að lífshamingja Evrópubúa er ekki háð neyslu.

Samtökin New Economics Foundation stóðu að könnuninni og tóku tillit til kolefnisútblásturs, hversu ánægt fólk var með lífið og lífslíkur. Norðurlöndin standa sig best í könnunni en Svíþjóð kemur næst á eftir Íslandi á listanum, þá Noregur, Sviss, Kýpur og Danmörk.

Bretland er í 15. sæti listans, Þýskaland í því 16. á meðan Frakkland vermir 19. sætið.

Í könnuninni segir að Ísland hafi nokkuð forskot á önnur Evrópulönd, sér í lagi vegna jarðhita sem spari gífurlegar fjárhæðir í olíuinnflutningi til húshitunar. Þá séu kolefnisvaldar færri en í öðrum Evrópulöndum og Íslendingar óttist glæpi minna en aðrar þjóðir álfunnar.

Til þess er tekið í niðurstöðu könnunarinnar að þrátt fyrir svalt veðurfar, horfi Íslendingar tiltölulega lítið á sjónvarp, eða 28 prósent minna en Bretar.

Þau lönd sem skipa neðstu sæti listans eru Eistland, Lúxemborg og Búlgaría.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×