Fótbolti

Laudrup klár í að taka við af Schuster

Michael Laudrup bíður eftir að geta skrifað undir hjá Getafe
Michael Laudrup bíður eftir að geta skrifað undir hjá Getafe NordicPhotos/GettyImages

Danska knattspyrnugoðsögnin Michael Laudrup hefur tjáð fjölmiðlum í heimalandi sínu að hans bíði þjálfarastaða hjá spænska liðinu Getafe og að hann væri þegar búinn að skrifa undir ef ekki væri fyrir óvissu varðandi framtíð Bernd Schuster.

Schuster er núverandi þjálfari Getafe, en Real Madrid hefur verið að reyna að fá hann til sín um langa hríð. Forráðamenn Getafe hafa blásið á þessi tíðindi og eru kollegum sínum hjá Real Madrid reiðir, því Schuster er samningsbundinn félaginu. "Samningurinn við Getafe er klár, en við getum ekki haldið áfram og skrifað undir fyrr en búið er að leysa mál sem eru í upplausn í dag," sagði Laudrup.

Talið er að forseti Getafe vilji fá nálægt hálfri milljón evra fyrir Schuster ef hann fer til Real og heyrst hefur að forsetinn sé í raun aðeins að bíða eftir því að Ramon Calderon forseti Real hringi í sig persónulega og gangi frá málinu. Vinnubrögð Real Madrid hafa enda farið í taugarnar á mörgum undanfarin ár og þykir forseta Getafe grannar þeirra í Madrid vera hrokafullir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×