Fótbolti

Arnór: Eiður vill sanna sig hjá Barca

Aron Örn Þórarinsson skrifar
Mynd_GVA

Arnór Guðjohnsen, faðir og umboðsmaður Eiðs Smára Guðjohnsen, segir að sonur sinn ætli sér að berjast fyrir sæti sínu í liði fyrrverandi Evrópu- og Spánarmeistaranna í Barcelona. Mikið hefur verið talað um framtíð Eiðs Smára og virðast flestir telja að framtíð hans hjá Barcelona sé ráðin, sérstaklega eftir komu Thierry Henry frá Arsenal.

„Margir klúbbar eru áhugasamir um Eið, en hann er ákveðinn í að sanna sig hjá Barca. Hann er núna í fríi og hefur ekki verið í sambandi við nein félög. Hann ætlar að hitta liðsfélaga þegar undirbúningstímabilið hefst í lok júlí," sagði Arnór í viðtali við BBC Sport. „En þrátt fyrir að hann vilji vera áfram, veit ég ekki hvaða áform Barcelona hefur."

Mikil samkeppni er um framherjastöðurnar hjá Barcelona, en þar þarf Eiður að berjast við Samuel Eto´o, Ronaldinho, Lionel Messi og nú Thierry Henry. Arnór heldur að Eiður og Henry geti náð vel saman, „Eiður og Henry gætu passað vel saman, Eiður getur verið djúpur og leitað Henry uppi. Ég held að Henry og Eto´o myndu ekki ná jafn vel saman," sagði Arnór.

Mikið hefur verið rætt um að Manchester United og Newcastle United hafi áhuga á að fá íslenska landsliðsfyrirliðann til sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×