Erlent

Óvæntur fundur við gröf Kínakeisara

Oddur S. Báruson skrifar
Terracotta hermennirnir halda traustan vörð um gröf Qin Shihuang.
Terracotta hermennirnir halda traustan vörð um gröf Qin Shihuang. MYND/afp

Óþekktur og afar dularfullur klefi fannst á dögunum í gröf Qin Shihuang, fyrsta keisara Kína. Klefinn fannst fyrir tilviljum með leitartækjum en engar heimildir voru þekktar um tilvist hans. Gröfin sjálf, sem er um 2200 ára gömul, fannst 1974. Frá þessu greinir á vef BBC.

Klefinn er þrjátíu metra djúpur og grafinn í píramídalaga hól ofan á keisaragröfinni. Ekkert hefur verið fullyrt um hlutverk þessa rýmis en ein tilgáta segir að þarna hafi sál keisarans átt að enda að honum látnum.

Stjórn Kína tekur fundinn alvaralega og hefur bannað frekari skoðanir á klefanum nema besta fáanlega tækjabúnaði sé beitt.



Gröf Qin Shihuang er staðsett nálægt borginni Xian á miðlendi Kína. Hún fannst árið 1974 og hefur fengið óskipta athygli vísindamanna síðan. Hún er álitin einn mesti fornleifafundur 20. aldar. Helsta einkennismerki hennar eru yfir átta þúsund hermenn og hestar úr leir sem keisarinn lét gera til að standa vörð um gröf sína.  

Qin Shihuang var fyrsti keisari Kína. Ríkidæmi hans stóð frá árinu 247 til 221 fyrir Kristsburð. Þrátt fyrir ýmis illskuleg vinnubrögð er Qui helst minnst sem hetju sem sameinaði kínversku þjóðina. Þá var Qui helsti hvatamaðurinn að byggingu hins margrómaða Kínamúrs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×