Erlent

Stjórnvöld í Súdan samþykkja sameiginlegt friðargæslulið

Jónas Haraldsson skrifar
Omar al-Bashir, forseti Súdan.
Omar al-Bashir, forseti Súdan. MYND/AFP

Stjórnvöld í Súdan hafa samþykkt að sameiginlegt friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins fái að starfa í Darfúr.

Stjórnvöld samþykktu 23 þúsund manna lið her- og lögreglumanna. Þau hafa lengi þráast við umleitunum Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins en aðeins sjö þúsund friðargæsluliðar hafa verið við störf í Darfúr.

Breskir og bandarískir stjórnarerindrekar hafa þó vakið upp spurningar um hvort að einhver skilyrði fylgi samkomulaginu. Stjórnvöld í Súdan hafa áður samþykkt að hleypa friðargæsluliðum inn í landið en síðan hefur ekkert orðið úr því. Núna er óttast að þau vilji aðeins afríska friðargæsluliða en ríki í Afríku hafa reynst treg að veita fjármunum í friðargæsluverkefni.

Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Zalmay Khalilzad, sagði að ef Súdan myndi setja skilyrði við friðargæsluliðana væri kannski kominn tími til þess að beita stjórnvöld enn harðari refsiaðgerðum en nú er gert. Kína og Rússland hafa hingað til verndað landið í öryggisráðinu en Kínverjar eiga mikilla viðskiptahagsmuna þar að gæta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×