Viðskipti erlent

Olíuverð sveiflaðist í dag

Heimsmarkaðsverð á hráolíu sveiflaðist nokkuð á helstu fjármálamörkuðum í dag og liggur verð á Brent Norðursjávarolíu við 69 dölum á tunnu. Ástæðan fyrir hækkuninni var samdráttur á olíuframleiðslu í Nígeríu. Tímasetningin þykir afar óþægileg enda mikil eftirspurn eftir eldsneyti hjá ökutækjaeigendum víða um heim nú þegar sumarið er gengið í garð.

Litlu virðist skipta þótt skæruliðar, sem síðastliðið eitt og hálft árið hafa staðið fyrir mörgum árásum á olíuvinnslustöðvar erlendra aðila í Nígeríu, hafi samið um vopnahlé til eins mánaðar. Greinendur telja ekki miklar líkur á að vopnahléið muni hafa áhrif á olíuverðið.

Skærurnar hafa orðið til þess að olíuframleiðsla í Nígeríu hefur minnkað um þriðjung. Samdrátturinn hefur mikið að segja í heildarframleiðslu á hráolíu enda Nígería stór framleiðandi í OPEC, samtökum olíuútflutningsríkja.

Verð á Brent Norðursjávarolíu hækkaði um 18 sent á markaði í Lundúnum í Bretlandi og stendur nú í 69,25 dölum á tunnu, samkvæmt upplýsingum Reuters. Verð á hráolíu lækkaði á sama tíma um 35 sent á markaði í Bandaríkjunum og stendur nú í 64,73 dölum á tunnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×