Innlent

Frístundakortin bylting fyrir börnin

Frístundakortin verða bylting fyrir börnin í borginni, segir formaður Björn Ingi Hrafnsson, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs. Fyrstu kortin verða send út í haust.

Eitt af kosningaloforðum Framsóknarflokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar voru frístundakort fyrir börnin í borginni. Það er nú að komast til framkvæmda. Endanleg útfærsla var samþykkt á fundi Íþrótta og tómstundaráðs í morgun. Öll 6-18 ára börn í Reykjavík fá í haust frístundakort með tólfþúsundkróna inneign sem þau geta nýtt til að greiða niður nám í íþróttum, tónlist, myndlist og fleiru. Frístundaskólar og félög þurfa að gerast aðilar að formlegum samningi við borgina og nú þegar hafa yfir 50 félög óskað eftir aðild að kortinu. Alls eru um 20 þúsund börn sem njóta góðs af. Um áramótin hækkar framlagið í 25 þúsund krónur og í ársbyrjun 2009 upp í 40 þúsund krónur.

Heildarfjárveiting borgarinnar til Frístundakortsins á næstu fjórum árum er 1860 milljónir króna. Fótboltakappinn knái Eiður Smári Guðjohnsen verður eitt af andlitum kortsins og sömuleiðis Ilmur Kristjánsdóttir leikkona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×