Erlent

Páfinn bað fyrir Madeleine

27 dagar eru liðnir síðan bresku telpunni Madeleine McCann var rænt af hótelherbergi í Portúgal og enn hefur ekkert til hennar spurst. Foreldrar Madeleine hittu Benedikt páfa sextánda í Róm í dag. Hann blessaði mynd af dóttur þeirra og bað fyrir fjölskyldu.

Benedikt hitti þau Kate og Gerry McCann, foreldra Madeleine litlu á vikulegri samkomu sinni á Péturstorginu í Róm í morgun. Mikill fjöldi fólks fylgdist með fundum þeirra og var hluttekning viðstaddra með hinum ógæfusömu foreldrunum augljós. McCann-hjónin sýndu páfa mynd af Madeleine sem hann blessaði og síðan báðu þau saman eftir að móðir Madeleine bað Benedikt um það. Á blaðamannafundi sem hjónin héldu eftir fundinn sögðu þau páfa hafa þekkt myndina samstundis og þau myndu geyma hana vandlega. McCann-hjónin hyggjast ferðast um Evrópu til að leita að dóttur sinni. Á fundinum í dag skoruðu þau á alla þá sem hefðu upplýsingar um Madeleine litlu að gefa sig fram.

Í dag eru 27 dagar síðan Madeilene, sem er fjögurra ára, var rænt af hótelherbergi á Praia de Luz á Algarve í Portúgal en foreldrar hennar höfðu brugðið sér út til að fá sér að borða. Ítarleg leit portúgölsku lögreglunnar, með aðstoð erlendra sérfræðinga, hefur enn engan árangur borið og með hverjum deginum sem líður fara vonirnar þverrandi að Madeleine finnist.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×