Fótbolti

Mourinho: Þurfum á smá heppni að halda

NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho segir að lið sitt Chelsea skorti aðeins örlitla heppni á næsta tímabili til að geta unnið sigur í Meistaradeild Evrópu. Hann vill þó ekki að hans menn verði of uppteknir af því einu að vinna Evrópukeppnina.

Mourinho hefur nú unnið allt sem hægt er að vinna á Englandi síðan hann tók við Chelsea, en sigur í Meistaradeildinni er þó enn ekki kominn í hús. "Það er ávanabindandi að vinna og ef menn ætla sér að vinna verða þeir að vera andlega sterkir. Ég er ánægður með þann árangur sem náðst hefur síðan ég kom hingað og að mínu mati skortir okkur bara smá heppni til að ná alla leið í Evrópu. Við höfum þrisvar náð í undanúrslitin á síðustu fjórum árum sem er frábær árangur, en við höfum þó aldrei náð í úrslitaleikinn. Ég vil meira og félagið vill meira og það er ekki nóg fyrir mig að hafa unnið keppnina með öðru liði," sagði Mourinho.

"Leikmennirnir vilja líka allir vinna sigur í Meistaradeildinni en menn mega ekki missa sig í þráhyggju yfir keppninni - það stoðar ekkert. Við erum þó alltaf að bæta okkur og við höfum náð að vinna leiki undir pressu hér á Englandi, svo við hljótum að vera á réttri leið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×