Innlent

Valgerður vill verða varaformaður

Guðjón Helgason skrifar

Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti varaformanns Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi flokksins sem haldinn verður í næsta mánuði. Þetta tilkynnti hún á blaðamannafundi í höfuðstöðvum flokksins við Hverfisgötu í morgun.

Valgerður sagði að útkoman í nýafstöðnum þingkosningum hefði verið flokknum óhagstæð. Það væri þó að baki og flokkurinn horfði nú fram á veginn. Jón Sigurðsson sagði af sér sem formaður flokksins á miðvikudaginn og Guðni Ágústsson, sem þá var varaformaður, tók við af honum.

Valgerður segist ekki vita til þess að nokkur annar ætli að bjóða sig fram til embættisins. Hún segist hlakka til að takast á við aukna ábyrgð verði hún kjörin. Hún hafi reynslu af því að vera í stjórnarandstöðu. Mikilvægt verði að veita aðhald sem verði full þörf á. Framsóknarflokkurinn ætli að starfa málefnalega sem hún telur oft hafa skort á í stjórnarandstöðu.

Valgerður segir að vissulega muni flokkurinn taka undir í mörgum málum ríkisstjórnar, eins og þeim sem Framsóknarflokkurinn hafi undirbúið í ríkisstjórn og séu enn í vinnslu. Hún segir hins vegar að tekið verði hart á þar sem farið sé gegn sjónarmiðjum Framsóknarflokksins, t.d hvað varði ýmis félagsleg mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×