Fótbolti

Ancelotti heimtar yfirvegun

NordicPhotos/GettyImages

Carlo Ancelotti, þjálfari AC Milan, vill ekki að leikmenn hans líti á úrslitaleikinn í Meistaradeildinni annað kvöld sem tækifæri til að ná fram hefndum á Liverpool síðan í úrslitaleik keppninnar fyrir tveimur árum. Hann vill heldur sjá sína menn einbeitta og yfirvegaða í Aþenu.

"Ég vil ekki líta á þenna leik sem hefnd og við verðum að leiða hjá okkur alla þá beiskju sem kann að vera í mannskapnum. Það þýðir ekkert að vera að velta sér upp úr fortíðinni og það er ekkert leyndarmál að við verðum að ná að þröngva þeim til að spila okkar leik ef við eigum að vinna," sagði Ancelotti og benti á frammistöðuna gegn Manchester United.

"Við verðum að ná góðu jafnvægi í okkar leik gegn Liverpool þar sem pressan verður sannarlega til staðar. Við verðum að höndla pressuna á sama hátt og við gerðum gegn Manchester United í undanúrslitunum."

Milan hefur þegar selt þá 17,000 miða sem félaginu voru úthlutaðir í fyrstu á úrslitaleikinn og varaforseti félagsins Adriano Galliani segir að miklu fleiri miðar hefðu geta selst. "Við fengum pantanir fyrir um 70,000 miðum á leikinn en þurftum að láta ársmiðahafana sitja fyrir," sagði Galliani. Nokkrar áhyggjur eru í herbúðum félagsins vegna verkfalla flugumferðastjóra á Ítalíu og óttast menn þar á bæ að eitthvað af stuðningsmönnum Milan nái ekki á völlinn þar sem um 400 flugum hefur verið frestað á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×