Innlent

Vinnuálag getur leitt til sýklalyfjaónæmis barna

Vinnuálag foreldra kallar á skyndilausnir við eyrnarbólgum barna og afleiðingin getur orðið sýklalyfjaónæmi, segir heilsugæsluæknir í Hafnarfirði. Þrátt fyrir umræðu um ofnotkun sýklalyfja hefur salan á þeim aukist.

Lengi hefur verið varað við því að ofnotkun sýklalyfja enda getur það leitt til ónæmis fyrir sýklalyfjum sem kemur sér illa þegar ná þarf niður alvarlegum sýkingum. Talið er að þrjú til fimm börn séu lögð inn á sjúkrahús í hverjum mánuði vegna sýklalyfjaónæmis og þurfa þá sýklalyf í æð. Vilhjálmur Ari Arason, heilsugæslulæknir í Hafnarfirði telur jafnvel að slæm eyrnaheilsa barna hér sé áskapað vandamál og kennir um vinnuálagi foreldra í uppspenntu þjóðfélagi.

Börn sjáist varla á heilsugæslustöðvum á venjulegum vinnutíma og foreldrar fari gjarnan með börnin sín á bráðavaktir. En þá taka við þeim ókunnugir læknar sem eru líklegri til að bjóða foreldrum upp á skyndilausnir.

Þrátt fyrir mikla umræðu um ofnotkun sýklalyfja hefur salan á þeim aukist um sextán prósent á milli ára.

Það þarf að auka skilning foreldra á því hvaða afleiðingar mikil sýklalyfjanotkun getur haft, segir Vilhjálmur Ari, sem telur að 80% sýklalyfjagafa barna séu óþarfar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×