Fótbolti

Milan og Liverpool mætast í úrslitum

Snillingurinn Kaka kom Milan á bragðið í kvöld og hefur skorað 10 mörk í 12 leikjum í keppninni í vetur
Snillingurinn Kaka kom Milan á bragðið í kvöld og hefur skorað 10 mörk í 12 leikjum í keppninni í vetur AFP

Það verður AC Milan sem leikur til úrslita gegn Liverpool í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu. Ítalska liðið vann í kvöld sannfærandi 3-0 sigur á Manchester United í síðari leik liðanna í undanúrslitum á San Siro. Milan og Liverpool mættust í úrslitaleik keppninnar fyrir tveimur árum.

Manchester United vann fyrri leikinn 3-2 á heimavelli með dramatískum hætti í síðustu viku, en leikurinn í kvöld var eign heimamanna í fyrri hálfleik og þar skoruðu þeir Kaka (´11) og Clarence Seedorf (´30) lagleg mörk og komu heimamönnum í vænlega stöðu.

Gestirnir sóttu í sig veðrið í síðari hálfleik og réðu þá ferðinni, en varamaðurinn Alberto Gilardino innsiglaði sigur Milan á ´78 mínútu eftir skyndisókn og gerði vonir enska liðsins að engu. Það er því ljóst að úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni í Aþenu verður endurtekning á sögulegum úrslitaleik keppninnar í Istanbul fyrir tveimur árum. Lið Manchester United náði sér einfaldlega aldrei á strik í leiknum og segja má að heimamenn hafi sett þá út af laginu með sterkri byrjun sinni.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×