Körfubolti

Nash með 23 stoðsendingar í sigri Phoenix

Nash og Stoudemire áttu báðir stórleik í kvöld
Nash og Stoudemire áttu báðir stórleik í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Phoenix Suns er komið í afar vænlega 3-1 stöðu í einvígi sínu við LA Lakers í úrslitakeppni NBA deildarinnar. Phoenix vann sannfærandi sigur 113-100 í Los Angeles í kvöld þar sem Steve Nash var nálægt því að slá metið yfir flestar stoðsendingar í leik í úrslitakeppni.

Mike D´Antonio þjálfari Phoenix vildi að hans menn keyrðu betur upp hraðann í leik fjögur eftir tap í síðasta leik. Steve Nash varð við þeirri ósk hans og var með 15 stoðsendingar í fyrri hálfleik þar sem Phoenix keyrði á fullum krafti. Lakers-liðið náði nokkrum sinnum að gera leikinn áhugaverðan með því að minnka muninn, en gestirnir voru alltaf skrefinu á undan.

Amare Stoudemire átti frábæran leik hjá Phoenix með 27 stig og 21 frákast, Shawn Marion skoraði 22 stig og hirti 11 fráköst og Steve Nash skoraði 17 stig og gaf 23 stoðsendingar. Magic Johnson (1984) fyrrum leikmaður LA Lakers og John Stockton (1988) fyrrum leikmaður Utah Jazz eiga metið í úrslitakeppni - sem er 24 stoðsendingar.

Kobe Bryant var að venju atkvæðamestur í liði Lakers með 31 stig, gaf 9 stoðsendingar og hirti 7 fráköst. Lamar Odom skoraði 19 stig og hirti 13 fráköst. Phoenix getur gert út um einvígið með sigri í næsta leik sem fram fer á heimavelli liðsins á miðvikudagskvöldið. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×